Áttunda bifreiðin var byggð fyrir Slökkvilið Reykjavíkur. Hér er samskonar undirvagn og fyrir Brunavarnir á Héraði og Flugmálastjórn á Egilsstöðum eða bifreið af MAN 19.403 FAK gerð með 400 hestafla vél, fjórhjóladrifna með sídrif, háu og lágu drifi, læsingum og sjálfskiptingu. Mannskapshús er tvöfalt eða fyrir sjö manns.
Heildarlestun þ.e. bifreiðin fullbúin í útkall er um 75% en vatnstankur er 2.000 l. og froðutankur 100 l. Rosenbauer slökkvidæla (NH30) afkastar 3.000 l. við 10 bar og 300 l. mín við 50 bar. Við dæluna er gangráður sem stjórnar stilltum þrýstingi þannig að hægt er að skilja dæluna eftir mannlausa ef þörf er á. Búnaður sem lokar fyrir tankáfyllingu svo tankur yfirfyllist ekki. Dælan er búin tveimur sjálfstæðum froðukerfum þannig að hægt er að hafa froðu á háþrýsti hliðinni og hreint vatn á lágþrýstihliðinni eða froðu á báðum samtímis.
Helsti búnaður til viðbótar eru tvö 60 m. 3/4" rafdrifin slöngukefli með Rosenbauer Ne-Pi-Ro háþrýstibyssum staðsett í öftustu hliðarskápum, Travel Power 4,5 kW rafall við vél, olíumiðstöð með lögnum í alla skápa, slönguskúffa fyrir 4" Armtex brunaslöngur ofan á vatnstank, loftdrifið ljósamastur 3 x 500W hæð 4,6 m, Raufoss 10 m. þrískiptur brunastigi, Rosenbauer reykköfunartækjastólar og tengingar fyrir talstöð, síma, tölvu, myndbandsupptökuvél ofl. Innréttingar eins og verkfæraveggir, slöngurekkar, hillur, skúffur ofl. Margskonar búnaður kom með bifreiðinni eins og Holmatro björgunartæki og klippur, Ramfan reyk og yfirþrýstingsblásarar, AGA Spiromatic reykköfunartæki, Rosenbauer froðublásari, Armtex brunaslöngur, Akron úðastútar og Vetter vatnssuga. Orkuhlutfall þessarar bifreiðar er um 28 hestöfl á hvert tonn.
Ellefta bifreiðin var byggð fyrir Slökkvilið Reykjavíkur. Gámabifreið af MAN 19.403 FAK gerð með 400 hestafla vél, fjórhjóladrifna með sídrif, háu og lágu drifi, læsingum og rafmagnsgírskiptingu. Mannskapshús er einfalt eða fyrir tvo menn. Bifreiðin er með Joab öflugan 12 tonna krók lyftibúnað fyrir gámagrindur, Travel Power 4,5 kW rafal við vél, loftdrifið ljósamastur 3 x 500W 4,6 m., rafdrifið 6 tonna Warn spil, uppbyggt tvískipt pústkerfi ofl.
Bifreiðin er notuð fyrir ýmsan búnað m.a. verðmætabjörgunargám, dælu og slöngulagnapall (með tveimur Rosenbauer Fox dælum) og vatnstank 7.200 l. allt smíðað hjá Rosenbauer.
Rosenbauer verðmætabjörgunargámurinn er með margvíslegum búnaði til verðmætabjörgunar eins og blásurum, seglum, þurrkurum, rafstöðvum og margs konar búnaði til björgunarstarfa eftir slökkvistarf.