Bara aðeins frá hjartanu og þar í kring. Við félagarnir Benjamín og ég skelltum okkur á úrslitaleikinn Birmingham Norwich 12. maí síðastliðinn á Þúsaldarleikvanginn í Cardiff og fengum allan pakkann þegar Birmingham vann sér sæti í úrvalsdeildinni eftir 16 ára fjarveru.
Við vorum meðal >75.000 áhorfenda og þetta var meiriháttar. Gerist bara einu sinni á ævinni. Framlenging 2 x 10 mín og þá staðan 1 1 og svo vítaspyrnukeppni sem mínir menn sigruðu örugglega. Við vorum kysstir af stútungs kellingum og fullvaxnir karlmenn grétu eins og börn af gleði. Þvílík upplifun.
Ég er búinn að vera dyggur aðdáandi Birmingham frá 1966 og góðir hlutir gerast seint (hægt). Ágætis mottó.
Einhverra hluta vegna virðast vera fáir stuðningmenn Birmingham hérlendis (skil það nú bara alls ekki) og Morgunblaðið hafði nú ekki stór orð um þennan leik. Alla vega sá ég það ekki og biðst velvirðingar ef ég fer með rangt mál en heilar þrjár dálkalínur fjölluðu um leikinn á úrslitasíðunni. Stoke fékk aldeilis umfjöllun en þeirra leikur var daginn áður. Svona er það nú en ekki skal láta deigan síga. Hér er heimasíða Birmingham City Football Club ef þið hafið áhuga á að verða aðdáendur the Blues www.bcfc.com Mjög góð heimasíða og hellingur af upplýsingum.
Ótrúlegustu menn fá áhuga á knattspyrnu og vera má að þessi túr okkar Benjamíns verði til þess að hann fái boltann í höfuðið en það hefur verið doldið djúpt á því hjá honum alla vega í kaffistofu umræðum.
Ástæðan fyrir því að við áttum tök á því að komast á leikinn var sú að á sama tíma vorum við að sækja sýningar í Birmingham og munum við fjalla um og koma á framfæri ýmsum nýjungum þaðan. Verður það aðallega um spilliefna búnað og tæki og svo viðvörunarbúnað margs konar.
Benedikt Einar Gunnarsson.
Leiknum lokið. Hverjir eru bestir ??