Ákvörðun komin í sjúkrabílaútboði Rauða krossins

Frestur var veittur til að taka ákvörðun í útboði Ríkiskaupa fyrir Rauða kross Íslands til dagsins í dag og tilkynning kom frá Ríkiskaupum að ákveðið væri að taka lægsta boðinu kr. 6.734.900 frá sama aðila og síðast. Við höfum verið gagnrýnir á þessi útboð og þá m.a. vegna þess að Ríkiskaup eiga ekki að bjóða út þar sem Rauði krossinn er ekki opinbert fyrirtæki en upp á það hljóðaði síðasti úrskurður kærunefndar útboðsmála. Í útboðsgögnum var heldur ekki möguleiki á að skjóta kærumálum til nefndarinnar heldur Héraðsdóms.

Eins gagnrýndum við einu sinni að ákvörðun um töku tilboða byggðist 100% á verði, en ekki tæknilegri útfærslu, vinnuaðstöðu og öryggi. Þetta er jú forgangsakstursbifreið.

Þessu var kippt í liðinn þannig að í dag telur verð 63 stig en gæði eins og það er kallað 37 stig en gæðin felast í eftirfarandi atriðum.

Aksturþægindum og öryggi i akstri.
Hröðun.
Eldsneytiseyðslu.
Fjöðrun.
Þol gegn hliðar vindálagi.

Í þessu útboði varð það ljóst að aðeins einn undirvagn kom til greina til að uppfylla kröfur, en það var MB Sprinter breyttur af Mantra eða Iglhaut og buðu allir bjóðendur hann svo samanburður var einfaldur,ef ofangreindar kröfur eru skoðaðar, en þar eru hvergi nefnd atriði eins og vinnuaðstaða, útfærsla innréttinga eða tækni og tæknibúnaður í sjúkrarými. Og tækninni hefur sko aldeilis fleygt fram eins og sjá má í þessari kvikmynd.

Eins kemur það okkur spánskt fyrir sjónir að á fyrirspurnatíma var hafnað ósk einhvers um frestun opnunar en samt var frestað opnun um viku.

Við gerðum fyrirspurn á frestunartíma vegna þeirrar vitneskju að Benz kæmi sjálfur með undirvagn sem uppfyllti kröfur án breytinga í nóvember á þessu ári eða þegar afgreiddar hefðu verið 6 bifreiðar af þessum 10, að fá að bjóða bifreiðarnar á mismunandi verði, en á tilboðsblaði stóð talan 10. Svarið var að það væri ekki hægt að verða við þessu vegna tímaleysis. Breyta þyrfti gögnum. Sérhver gat sagt sér að óskin var fram lögð, til að bjóða hagstæðara verð fyrir kaupandann.

Ekki gátum við párað inn á tilboðsblaðið viðbætur, því það er harðbannað og á við girðingarglæp (eins og Gísli út og suður fræddi okkur um daginn um í sjónvarpinu).

Samt var hægt að fara fram á við bjóðendur frestun ákvörðunar um töku tilboðs um viku. Vera má að það hafi verð vegna jólahátíðar, sem bróðurpartur heimsbyggðarinnar heldur hátíðlega. En það var vitað fyrir jól þegar opnun var að það yrðu jól.

Í lokin. Það tilboð sem nú var tekið að upphæð kr. 6.734.900 er mjög hagstætt verð og ekki á okkar færi að bjóða, enda bjóðum við allt aðra útfærslu og að öllu leiti mun tæknilegri. Það er líka okkar vandamál að vera að reyna að koma á markað hér nýjustu sjúkrabifreiðunum, þar sem ekki virðist áhugi á eða fjármagn til fyrir slíkum bifreiðum.

En það er fróðlegt að það verð sem lægst var síðast og tekið var, uppreiknað miðað við gengi er kr. 6.837.415 þannig að bjóðandi hefur getað hagrætt  í rekstri og þarf minna, þó dýrari undirvagn sé nú boðinn. Það er vel.

Benedikt Einar Gunnarsson