Ársannállinn - síðasta frétt ársins

Árið sem nú er að líða hefur heldur betur reynst viðburðarríkt fyrir alla Íslendinga. Fátt er jákvætt við núverandi efnahagsástand landsins og mannorð þjóðarinnar flekkað, svo ekki sé meira sagt. 

En við viljum þakka traustum og góðum viðskiptavinum okkar fyrir ánægjulegu viðskiptin á líðandi ári og vonum, að við eigum þess kost að þjóna ykkur áfam á komandi ári. Megi nýtt ár verða öllum gleðilegt og gæfuríkt.

Hvernig við bregðumst við efnahagsástandinu er ekki ljóst, en við munum, ef verulegar breytingar verða á þjónustustigi okkar tilkynna um þær hér á vefsíðunni.

Að minnsta kosti hefur verið tekin ákvörðun um að draga úr birgðahaldi en síðast á þeim vörum sem mest er selt af hverju sinni.

Allan almenna eldvarnabúnað munum við leggja áherslu á og reyna eftir bestu getu að eiga á lager og á sem hagstæðasta verðinu.

Ýmsar nýjar vörur litu dagsins ljós á árinu og margar alveg undir það síðasta. Stór hluti kemur frá birgja okkar Ningbo.

Má þar nefna kolsýrlingsskynjara, gasskynjara, reykskynjara, þráðlausan sendibúnað, lyfjaskápa, skápa fyrir slökkvitæki á bifreiðar, slökkviduft, léttvatnsslökkvitæki með fleiri slökkvieiningar, kolsýruslökkvitæki, keðjustiga og brunaslöngur. Allt á betra verði en við höfum áður geta boðið.

Sicor hlífðarhjálmar, Nýjar gerðir af PSP sjúkratöskum, Ný gerð af Protek úðastútum, Gras brunaslönguhjól o.fl.

Sú þjónusta okkar m.a. við slökkviliðin að liggja með sérstakan búnað og tæki, sérstaklega fyrir þau, mun eflaust líða fyrir. Við höfum á undanförnum árum reynt hvað við getum að eiga sem flest á lager, þó ekki sé í miklu magni og státum okkur af því að vera einir fárra, sem gera það hérlendis. Á móti, munum við gera ráðstafanir til að geta pantað og afgreitt með skömmum fyrirvara þessar sömu vörur. Við munum leggja áherslu á að liggja með á lager þann búnað, sem mest mæðir á og notaður er við slökkvistörf. Við gerum sem sagt ráð fyrir því, að flest sveitarfélög fari ekki í verulegar fjárfestingar, en sinni þó viðhaldsþættinum.

Það var þó jákvætt að lesa um í Morgunblaðinu 22. desember síðastliðinn, að í breytingartillögum fjárlaganefndar við fjárlög, er að finna heimild til handa fjármálaráðherra til að endurgreiða sveitarfélögum virðisaukaskatt vegna kaupa á nýjum slökkvibifreiðum og búnaði slökkvibifreiða. Verði það samþykkt er það mikið framfaraspor.

Á árinu fengu þrjú slökkvlið slökkvibifreiðar frá okkur, en það voru Slökkvilið Langanesbyggðar og Flugstoðir, Brunavarnir Árnessýslu á Selfossi og Slökkvilið Snæfellsbæjar í Ólafsvík. Allar bifreiðarnar voru byggðar hjá Wawrzaszek í Póllandi. Við komum að breytingum á einni bifreið fyrir Flugstoðir, en það var slökkvibifreið á Bakkaflugvöll.

Við tókum þátt í tveimur útboðum og einni verðkönnun á slökkvibifreiðum á árinu.

Fyrra útboðið var hjá Ríkiskaupum á slökkvibifreiðum fyrir Keflavíkurflugvöll. Verð okkar var lægra, en ákveðinn búnaður réði úrslitum, en aðeins einn framleiðandi hafði slíkan búnað í bifreiðum sínum. Eftir því sem við höfum fregnað hefur samningum verið rift. Við gerum ráð fyrir þegar ástandið lagast að boðið verði út að nýju og verður spennandi að taka þátt í því útboði fyrir þá sem það gera.

Seinna útboðið var á vegum Reykjavíkurborgar fyrir Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins á fjórum bifreiðum. Verð okkar var ekki lægst en sáralítill munur var á eða 1,5%. Afgreiðslufrestur og búnaður réðu úrslitum að ákveðið var með fyrirvara að ganga til samninga við okkur, en á fyrirvarafresti kærði keppinautur niðurstöður til Kærunefndar útboðsmála. Kæran var tilefnislaus og virtist keppinautur byggja kæru sína á að ekki væri þörf fyrir samkeppnisviðræður. Ef svo hefði verið, sem við segjum af og frá, var skylt að kæra slíkt í upphafi, en ekki eftir opnun. Vegna efnahagsástandsins var hætt við kaupin.

Vopnafjarðarhreppur og Flugstoðir stóðu fyrir verðkönnun á slökkvibifreið og vorum við ekki með heppnina með okkur þar. Skiptist þar í tvo horn, en Flugstoðir vildu ganga til samninga við okkur. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu slökkviliðsins gera Vopnfirðingar ráð fyrir að fá bifreiðina í byrjun nýs árs.

Önnur sveitafélög og slökkvilið, sem samninga gerðu á árinu um slökkvibifreiðar, leituðu ekki til okkar um verð eða upplýsingar.

Af stærri búnaði til slökkviliða má nefna að tvö slökkvilið fengu Tohatsu brunadælur á árinu en það voru Slökkvilið Ísafjarðarbæjar og Brunavarnir Stykkishólms og nágrennis. Brunavarnir Borgarbyggðar fengu Rosenbauer Otter brunadælu.

Ramfan yfirþrýstingsblásara fengu Slökkvilið Fjarðabyggðar, Brunavarnir Borgarbyggðar og Brunavarnir Árnessýslu. Fol-da-Tank vatnslaug 9.500 l. fór til Slökkviliðs Norðurþings á Húsavík.

Weenas sjúkraflutningamannasamfestingar fóru til Slökkviliðs Fjarðabyggðar og Brunavarna Suðurnesja. Wenaas hlífðarfatnaður til SHS, Slökkviliðs Akureyrar, Slökkviliðs Suðurnesja, Slökkviliðs Hveragerðis, Slökkviliðs Langanesbyggðar, Slökkviliðs Tálknafjarðar og Brunavarna Árnessýslu. Trellchem Super eiturefnabúningar fóru til SHS.

Nokkur slökkvilið fengu Peli ljós og eru helstu gerðir Little Ed 3600 og StelthLite 2400. Nokkrar björgunarsveitir völdu Gallet F2 Xtrem hlífðarhjálmana þ.e. sömu gerðina og er í sjúkrabifreiðunum.

Hér er aðeins hluti talið upp ykkur til upplýsinga og hjálpar kannski til við frekari skoðun og vangaveltur um hvaða búnaður sé hentugastur. Eins hvað leita megi umsagna.

Brunaslöngurnar frá Ningbo fengu góðar viðtökur og fyrirsjáanlegt að við munum stefna á að liggja með þær gerðir á lager áfram.

Við heimsóttum China Fire í Peking, eins og komið hefur fram hér á síðunni og höfum þegar gert pantanir á búnaði, sem við munum verða með á lager. Fyrsta sendingin er væntanleg undir lok febrúar á nýju ári.

Bestu óskir um gleði- og gæfuríkt komandi ár