Bjarni Kristinn Þorsteinsson er Vestlendingur ársins 2006

Í frétt Morgunblaðsins og Skessuhorns í dag kemur fram að Bjarna hafi verið veitt viðurkenningin Vestlendingur ársins 2006 en eins og allir slökkviliðsmenn vita er Bjarni slökkviliðstjóri í Borgarnesi (Borgarbyggð). Segir í Skessuhorni að viðurkenninguna hljóti Bjarni fyrir hönd allra þeirra sem þátt tóku í farsælu björgunar- og slökkvistarfi á Mýrum í mars á sl. ári og sem tókst einkar vel miðað við aðstæður sem líkja má við hamfarir.
Bjarni Kristinn
Uppúr stóð að fólki, fénaði og mannvirkjum var bjargað og talið er að gróður muni að mestu leyti jafna sig í tímans rás. Bjarni Kristinn er slökkviliðsstjóri í Borgarnesi og féll það því í hans hlut að stjórna slökkvistarfi á Mýrum en að því kom einnig fjöldi annarra slökkviliða, björgunarsveitir, bændur og aðrir sjálfboðaliðar.



Í ítarlegu viðtali sem birtist við Bjarna Kristinn í Skessuhorni í dag segist hann einungis taka við viðurkenningunni fyrir hönd allra þeirra er þarna komu að málum, jafnt slökkviliðs- og björgunarmönnum, bændum, lögreglu, matráðum og öðrum sem lögðu hönd á plóg í þessum tveggja til þriggja sólarhringa slag við elda sem ógnuðu bæði mönnum, skepnum og mannvirkjum. Bjarni segir það af og frá að þessi heiður tilheyri honum einum.

Við leyfum okkur að taka þessa frétt og mynd upp úr Skessuhorni og viljum óska Bjarna hjartanlega til hamingju með titilinn og viðurkenninguna. Hann er vel að henni kominn.