Brunavarnir Suðurnesja Fjölskyldudagur

Fjölskyldudagur Ný slökkvi- og björgunarbifreið afhent.

Hann er glæsilegur nýi bíllinn

Síðasta laugardag var Fjölskyldudagur hjá Brunavörnum Suðurnesja, þar sem íbúum Reykjanesbæjar gafst kostur á að kynna sér starfsemi neyðarsveita á svæðinu. Í tilefni dagsins var tækjabúnaður Brunavarna Suðurnesja sýndur og kynntur sem og búnaður björgunarsveitarinnar Suðurness. Suðurnesjadeild Rauða Krossins var með kynningu á starfseminni og einnig voru söluaðilar með kynningu á slökkvitækjum, reyskynjurum og fleiri eldvarnabúnaði.


Presturinn blessar bifreiðina

Dagskráin byrjaði kl. 11 með formlegri afhendingu á nýrri Ford/Rosenbauer slökkvi og björgunarbifreið. Bifreiðin er af gerðinni Ford 550XLT 4x4 sjálfskipt með tvöföldu húsi. Í yfirbyggingu sem er byggð úr áli og plasti er vatnstankur 800 ltr, froðutankur 100 ltr, Rosenbauer NH20 háþrýst og lágþrýst dæla 2000 ltr við 10 bar og 200 ltr. við 40 bar, dælan er knúin af Hatz diesel vél og því óháð bílvélinni, inntak 4" úttök 21/2" og 11/2" öll með Storz tengjum. Froðublandari fyrir há og lágþrýsting er sambyggður við dælu. Rafdrifið háþrýstislöngukefli með 50 mtr ¾" slöngu, loftdrifið ljósamastur 4,6 mtr. með 3x500W kösturum, dráttarspil með festingum að aftan og framan. Bifreiðin kom með festingum og innréttingum frá framleiðanda svo sem, útdregnum festingum fyrir reykköfunartæki og aukakúta, skúffu fyrir ofan dælu, föstum hillum, útfellanlegum verkfæravegg, snúningspalli fyrir björgunartæki og festingum fyrir ýmsan búnað.


Búið að koma tækjum og búnaði fyrir

Starfsmenn Brunavarna Suðurnesja hafa síðustu daga komið fyrir ýmsum tækjum og búnaði sem til var í bílinn og nú síðast nýjum Holmatro björgunartækjum sem Brunavarnirnar fengu í síðustu viku. Búnaðurinn samanstendur af dælu sem drífur tvö tæki samtímis og slönguhjólum með 25 mtr. slöngum, aukadælu af gerðinni TPU15 sem er létt og meðfærileg dæla, klippum, glennum, tjakk, pedalaklippum og fl. Öllum búnaði hefur verið einstaklega vel fyrir komið og þess gætt að ofhlaða ekki skápa og að þægilegt sé að nálgast búnað og stjórntæki. Bíllinn er allur hinn glæsilegasti og við óskum Brunavörnum Suðurnesja til hamingju með nújan bíl og búnað.


Slasaðir klipptir út úr bílflaki með HOLMATRO björgunartækjum

Eftir afhendingu bílsins hélt dagskrá fjölskyldudagsins áfram með því að sýnd var notkun björgunartækja við björgun slasaðra úr bíl.


Eldur í bifreið slökktur með háþrýsting

Að því loknu var sýnt hvernig slökkt er í brennandi bíl, björgun af þaki með stigabíl, áhorfendur gátu fylgst með reykköfunaræfingu, sýnd var endurlífgun (ekki raunveruleg) og fleira og fleira.


Slökkviliðsmenn grilla pylsur, gott að hafa tankbíl til taks (ef brennur við)

Slökkviliðsmenn sýndu leikni sína í að grilla pylsur og seldu gegn vægu gjaldi, blöðrur voru gefnar og ekki var annað að sjá en að allir skemmtu sér vel. Dagskráin stóð til kl. 5 og kom fjöldi manns til að sjá búnað neyðarsveitanna og fræðast um starf slökkviliðsmanna.


Mikill fjöldi gesta var á svæðinu

Það var gaman að sjá hvað margir komu og svona dagar tilvaldir til að kynna slökkvilið fyrir eigendum sínum og notendum.