Fræðslufundur hjá Brunavörnum Árnessýslu í gærkvöldi

Ég var svo heppinn að vera boðinn á fræðslufund hjá Brunavörnum Árnessýslu en þar hélt Höskuldur Einarsson frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins fyrirlestur um eiturefnavarnir og þann búnað sem SHS hafa nýverið fengið til sín. Um leið átti að kynna nýju ISS- Wawrzaszek slökkvibifreiðina sem kom nú í september til Þorlákshafnar og mættu þrír með hana þaðan.

Góð mæting var og var sérstakt að koma að þessu þar sem við blasti verðmætaverndargámurinn frá SHS sem er orðinn fullur af búnaði til að fást við eiturefnaslys, slökkviliðsmenn úr uppsveitum, Selfossi, slökkvistjórinn úr Hveragerði og Þorlákshafnarfélagarnir. Var þetta kannski farmtíðarsýn :-)) en hvar voru þá Keflvíkingarnir ?? Jú þeir þurftu ekki að mæta þarna  því þeir fengu fræðslu kvöldið áður.

Eins og venjulega var ekki komið að tómum kofanum hjá Höskuldi og fór hann yfir allan búnaðinn ásamt því að segja frá Trelleborgartjöldunum en þau eru geymd á stöðinni í Hafnarfirði og bíða þess að undir þau sé keyptur gámur. Eins er ætlunin að færa til eiturefnabúnaðinn úr þessum verðmætaverndargám í annan gám sem væntanlega fæst líka.

Bróðurpartur þess búnaðir sem er í gámnum er frá Vetter í Þýskalandi en það er þéttibúnaður af mismunandi stærðum og gerðum og eins efnasuga. Líka eru þeir með efnadælur frá Flux en aðeins eru til tvær slíkar dælur. Önnur hjá þeim en hin hjá SA. Það úrval af þéttibúnaði sem er í gámnum er hvergi annarsstaðar hér á landi svo við vitum til.

Það mátti svo sem búast við að Höskuldur gerði eitthvað snilldarlegt enda þurfti að fara úr húsi til að fylgjast með efnahvörfum sem hann galdraði fram. Sumir eldast aldrei :-)).

Í lokin skoðuðu menn Þorlákshafnarbifreiðina og svo var Sigurður Þór Ástráðsson með  One Seven myndasýningu. Mjög fróðleg.

Ég tók nokkrar myndir sem hægt er að skoða hér.