Nú eru jólakort SKB komin í sölu á skrifstofu Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna. Einnig er hægt að panta
kortin hér á hlekknum á heimasíðunni (jólakortið vinstra megin). Boðið er uppá innáprentun fyrir fyrirtæki og
félagasamtök.
Sala jólakorta hefur verið ein helsta fjáröflun SKB á hverju ári og rennur ágóði af sölu kortanna til fjölbreytts starfs
félagsins sem sinnir þjónustu og stuðningi við krabbameinssjúk börn og fjölskyldur þeirra.
Um félagið
SKB var stofnað 2. september 1991 af foreldrum barna með krabbamein. Félagið er ekki rekið í ágóðaskyni en starfar fyrst
og fremst sem sjálfshjálparhópur fjölskyldna barna sem fengið hafa krabbamein. Allir sem áhuga hafa á málefnum krabbameinssjúkra barna geta
gerst félagar í SKB. Einungis foreldrar barna sem fengið hafa krabbamein hafa þó rétt til stjórnarsetu. Aðalfundur er haldinn í lok
október á ári hverju.
Tilgangur SKB er að gæta hagsmuna krabbameinssjúkra barna og aðstandenda þeirra á öllum sviðum innan sjúkrahúsa og utan.
Árlega greinast að meðaltali 10 - 12 börn og unglingar 18 ára og yngri með krabbamein á Íslandi. Markmiðið með stofnun
Styrktarfélags
krabbameinssjúkra barna var m.a. að styðja við bakið á þeim og aðstandendum þeirra bæði fjárhagslega og félagslega. Í
upphafi hafði félagið ekki mikið bolmagn til framkvæmda en úr rættist með stórri landssöfnun 1993. Þá var m.a. stofnaður
neyðarsjóður sem meðlimir SKB geta sótt um fjárstyrk úr. Fimm manna nefnd metur umsóknir og úthlutar styrkjum en tengist SKB ekki að neinu
öðru leyti. Formaður nefndarinnar er séra Pálmi Matthíasson. Neyðarsjóðurinn er í raun upphæð sem stjórn SKB samþykkir
fyrir hvert starfsár að úthlutunarnefnd megi úthluta úr styrktarsjóði SKB en skipulagsskrá fyrir hann er staðfest af
dómsmálaráðuneytinu. Einnig ákveður stjórn SKB þak á hverja úthlutun. Hver félagsmaður í SKB má þó
sækja um eins oft og hann telur þörf á. Tekið skal fram að skila þarf inn talsverðu af upplýsingum með umsókn í
neyðarsjóð til þess að auðvelda úthlutunarnefnd að taka raunhæfar ákvarðanir. Enn fremur má upplýsa að
þjónustufulltrúi SKB hjá viðskiptabanka félagsins aðstoðar úthlutunarnefnd við skoðun og mat á umsóknum.
Fullyrða má að með fjárstuðningi sínum hafi félagið hjálpað mörgum úr verulegum fjárhagsvanda sem rekja má til
þess að barn í fjölskyldunni greindist með krabbamein. Enn fremur er ástæða til að álíta að í dag séu
fjárhagserfiðleikar fyrirbyggðir hjá fjölskyldum nýgreindra barna og unglinga með starfsemi SKB.