Nýir björgunarbátar og nýr slökkvibíll fyrir Reykjavíkurflugvöll

Frétt af vef Morgunblaðsins í morgun. (13/12 2002)

Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins á Reykjavíkurflugvelli verða afhentir tveir nýjir björgunarbátar og nýr slökkviliðsbíll í dag. Slökkviliðsbíllinn er sá fullkomnasti sem til er á flugvöllum á vegum Flugmálastjórnar. Björgunarbátarnir eru af gerðinni Zodiac Mark V og getur hvor um sig borið allt að 15 til 20 menn. Með þessum búnaði er verið að efla slökkvi- og björgunarbúnað á flugvellinum til muna. Björgunarbátarnir eru með mjúkum botni og sagðir hentar vel til landtöku á erfiðum stöðum. Bátarnir eru búnir tveimur 50 hestafla utanborðsmótorum hvor en við það eykst öryggi bátanna til mikilla muna, þar sem minni líkur eru á að þeir verði ónothæfir við það að mótor rekist í við erfiðar aðstæður líkt og víða er í grunnristum Skerjafirðinum.

Stjórn-, siglinga- og fjarskiptabúnaður bátanna verður og fullkominn, að sögn Flugmálastjórnar. Verða þeir búnir fullkomnu GPS staðsetningartækjum með innbyggðum kortagrunni og dýptarmæli. Í þeim eru siglingaráttaviti, vinnuljós að framan og aftan, leitarljós, siglingaljós og blikkljós. Þá eru bátarnir búnir TETRA og VHF talstöðvum og eru stöðvarnar beintengdar hjálm skipstjórnarmannsins. Aðskildir rafgeimar eru fyrir mótora annars vegar og rafeindarbúnaði hins vegar.

Annar báturinn veðrur geymdur í skýli sem búið er að byggja fyrir ofan sjósetningarbrautina í Nauthólsvík. Þannig verður tryggt að sem minnstur tími fari í sjósetningu. Hinn báturinn verður geymdur á slökkvistöðinni á flugvellinum.

Slökkviliðsbifreiðin er af gerðinni MAN/Rosenbauer, með 420 hestafla vél og drif á öllum þrem hásingum. Vatnstankur bílsins tekur 7.900 lítra og froðutankurinn 790 lítra. Að auki eru 225 kg. af duftslökkviefni í bílnum og hann því alls búinn 8.900 lítrum af slökkviefni. Með öllum búnaði vegur bíllinn yfir 27 tonn.

Tvær vatnsbyssur eru á bifreiðinni, önnur ofan á þaki sem afkastar 4.000 lítrum á mínútu, en hin er framan á bílnum og afkastar hún 1.000 lítrum á mínútu. Báðum byssunum er stjórnað af ökumanni inni í bílnum. Þannig getur einn maður stjórnað þessum fullkomna slökkviliðsbíl.