Eins og flestir vita sem með hafa fylgst þá bauð Ríkiskaup fyrir hönd Brunamálastofnunar út búnað fyrir slökkvilið til
reykköfunar og viðbragðs við mengunarslysum og var það opnað í dag að viðstöddum 9 bjóðendum og fulltrúum
Brunamálastofnunar Birni Karlssyni brunamálastjóra og Elísabetu Pálmadóttur skólastjóra.
Eins og áður sagði bárust þó nokkur tilboð bæði aðaltilboð og frávikstilboð. Sjá má fundargerð Ríkiskaupa
hér en þar koma fram öll tilboð hvort sem þau eru tilboð eða
frávikstilboð.
Til glöggvunar fyrir alla þá setjum við líka inn tilboðsblöð svo hægt sé að átta sig á hvað er búnaður A og
hvað er búnaður B. Í stuttu máli er búnaður A
spilliefnabjörgunarbúnaðurinn en búnaður B er
reykköfunarbúnaðurinn og hvoru tveggja á að vera í kerru.
Við vorum ekki lægstir enda áttum við ekki von á því en við tókum þá afstöðu að bjóða í samvinnu
við Wawrzaszek í Póllandi og í bróðurparti tilfella buðum við búnað sem all lengi hefur verið í notkun hérlendis.
Þar sem útboðið ber nafnið Búnaður fyrir slökkvilið til reykköfunar og viðbragðs við mengunarslysum þá tókum við
þá afstöðu að bjóða vandaðan búnað eins og að vísu við gerum ætíð en við lögðum sérstaka
áherslu á kerrurnar og eru þær sérsmíðaðar frá grunni þ.e. frá hjólabúnaði og beisli og skýrir
það verðið.
Hér má sjá kerru fyrir búnað A
og
hér kerru fyrir búnað B. Alvöru kerrur.
Slíkur búnaður sem þessi þarf góða geymslu (t.d. reykköfunartækin) og eins öflugt farartæki þar sem ætlast er til að
hann sé notaður í bruna eða eiturefnaslys. Gera þarf því sömu kröfur og um slökkvibifreið væri að ræða eða er svo
ekki ?
Við hefðum geta boðið staðlaðar kerrur en þá væri ekki hægt að treysta á að búnaði væri vel fyrir komið og hann
væri festur eins tryggilega og krafist er og eins var óskað eftir aðgengi um þrjár hurðar, fleka eða lok og regn og rykþéttar kerrur.
Búnaðurinn er margur hver þungur og fyrirferðamikill og því ekki umgengnisvænt að setja hann í kerru með skjólborðum þar sem
ávallt þyrfti að lyfta honum upp fyrir borð. Þörf er á sterkum og öruggum flutningsbúnaði m.a. fyrir loftbanka af þessari þyngd og
öruggt vinnuumhverfi við áfyllingu reykköfunartækja. Það væri óskemmtilegt að mæta bankanum annar staðar en í kerrunni í
útkalli.
Stór hluti búnaðar sem er í kerrunum er notaður á fyrstu mínútum slysa eða óhappa svo gera má ráð fyrir
forgangsakstri. M.a. þess vegna treystum við okkur ekki til að bjóða bara einhverjar kerrur.
Þá vaknaði sú spurning hvort kerrurnar eigi ekki að vera með forgangsljósum. Þó nokkur slökkvilið eru með foringjabifreiðar
með forgangsljós í grilli og sé kerran aftan í slíku farartæki í forgangsakstri er þörf á ljósum.
Ekki þarf að minnast á gildi þess að slíkur búnaður sé fyrir hendi hjá slökkviliðum þar sem á mjög mörgum
stöðum er enginn búnaður til að eiga við spilliefnaslys og það þarf ekki að fara langt frá höfuðborginni til að finna
slökkvilið sem er vanbúið reykköfunartækjum og búnaði til áfyllingar. Þess vegna teljum við að þörf sé fyrir
öflugan flutningsbúnað því búnaður yrði örugglega notaður í útkalli.
Við viljum þakka Brunamálastofnun að koma svo veglega að þessum málum með kaupum á nýjum búnaði sem raun ber vitni. Slíkt
hefur ekki gerst áður svo við vitum til.
Fram hefur komið að þetta útboð er að mörgu leyti mjög sérstakt og nokkuð mikið opið. Það er hugarsmíði nokkurra
slökkviliðsstjóra og Brunamálastofnunar og verður eflaust erfitt að ákveða hver hlýtur hnossið en ef lægsta verð ræður
þá er nokkur ljóst hvaða fyrirtæki fá.