Reykskynjarar björguðu miklu

Innlent | mbl.is | 6.7.2009 | 06:55
Eldur kviknaði í sumarbústað í landi Efri-Reykja í Laugardal í nótt. Karl og kona sem dvöldu í bústaðnum vöknuðu við reykskynjara og sluppu ósködduð. Karlinum tókst að slökkva eldinn en nokkrar skemmdir urðu á bústaðnum af völdum elds og reyks.

Tilkynning um eldinn barst kl. 3.10 í nótt. Fólkið vaknaði við að reykskynjari fór í gang. Þá var eldur í uppþvottavél og hafði hann læst sig í eldhúsinnréttinguna. Húsráðandi tengdi slöngu og slökkti eldinn og hringdi svo í slökkvilið. Lögreglan fór á staðinn en þar eð eldurinn hafði verið slökktur var engin þörf á slökkviliði.

Að sögn lögreglunnar á Selfossi er uppþvottavélin ónýt og líklega eldhúsinnréttingin. Þá urðu einnig skemmdir vegna reyks og sóts í sumarhúsinu. Lögreglan sagði að bústaðurinn hafi verið vel búinn reykskynjurum og eru þeir taldir hafa bjargað því að ekki fór verr.

Fréttina leyfðum við okkur að taka af vef mbl.is en hér má sjá fréttina þar.