Sérsmíðaðar duftkúlur fyrir Flugmálastjórn.

Það er víst engin nýlunda að oft á tíðum þarf að bæta við og breyta búnaði í slökkvibílum. Oftast er það vegna þess að nýr og betri búnaður kemur á markað og svo einnig vegna þess að kröfur breytast.

Og þá þarf að bæta við eða breyta búnaði.  Þannig er það einmitt með Dodge/Rosenbauer slökkvibíla sem staðsettir eru á minni flugvöllum, eða á 4 flugvöllum.  Samkvæmt nýjustu reglum ICAO eru gerðar kröfur um meiri slökkvigetu en voru þegar þessir bílar voru smíðaðir.  Og því þurfti að bæta 135 kg þurrduftskúlum á bílana.



Vandinn var hins vegar sá að mjög lítið pláss er eftir ónýtt í bílunum og alls ekki reiknað með svo mikilli viðbót við búnað, þannig að allar staðlaðar gerðir af duftkúlum í þessari stærð komust ekki í bílana. Þetta stefndi því heilmikið vandamál og miklar breytingar á bílunum, sem að sjálfsögðu eru líka kostnaðarsamar.  En eftir talsverða yfirlegu og pælingar þá komumst við að samkomulagi við einn birgja okkar Lichfield fire & safety.



Hann tók að sér að sérsmíða duftkúlur eftir máli og hugmyndum frá okkur. Það verður að segjast eins og er, að þessi lausn kemur mjög vel út, auk þess að vera ódýrari heldur en standard duftkúla af þessari stærð.  Við afgreiddum þessar 4 duftkúlur til Flugmálastjórnar í dag, og fljótlega verður farið í að setja þær í slökkvibíla sem staðsettir eru á Hornafirði, Sauðárkrók, Bíldudal og Grímsey. 

Þegar það verður búið uppfylla þessir bílar ströngustu kröfur um slökkvigetu miðað við stærð flugvallar og stærð flugvéla sem mega lenda á þeim.  Góð lausn fyrir alla aðila.