Til hvers eru kaup á slökkvibílum boðin út ?

Grein með þessari fyrirsögn birtist í Morgunblaðinu 10. mars síðastliðinn en hafði áður birst í Sunnlenska Fréttablaðinu.


Við lestur greinarinnar kemur í ljós, að greinahöfundur fer fjarri staðreyndum sem hefði átt að vera óþarfi, þar sem hann tók sjálfur þátt í útboði EBÍ og SÍS, nema að það hafi verið tilgangurinn að fara fjarri staðreyndum, til að hafa eitthvað til að skrifa um.

Staðreyndirnar eru og um þær má lesa í þeim gögnum sem koma frá EBÍ og SÍS.

Tilboð okkar á tæpar 11 milljónir (ekki rúmar), sem var lægsta gilda tilboðið var fyrir ROSENBAUER-MAN 15.284 slökkvibifreið með kojuhúsi ekki tvöföldu húsi eins og greinahöfundur heldur fram.

Nægstlægsta tilboðið var ekki frá fyrirtæki greinahöfundar heldur áttum við tilboðin í öðru, þriðja og fimmta sæti. Tilboðið í fjórða sæti uppfyllti ekki skilyrði og var frá þriðja aðila. Tilboð greinahöfundar fyrir MAN 14.284 með kojuhúsi þ.e. fyrir tvo var í sjötta sæti á 14,1 milljónir, sem hann segir að vísu vera 14,5 milljónir fyrir sams konar bíl og var í fyrsta sæti. Ef greinahöfundur á við að hann hafi boðið 14,5 milljónir fyrir bifreið sambærilega við þá í fyrsta sæti, en með tvöföldu húsi breytir það engu röð tilboðs hans.

Greinahöfundur hefur augljóslega gleymt forsendum og óskum sem fram komu í útboðsskilmálum, enda hefði þá ekkert verið til að skrifa um.

Grundvallarkrafan í útboðsgögnunum var slökkvibifreið með ákveðnum forsendum. Óskað var eftir sérverðum á margvíslegum búnaði til viðbótar og annars konar útfærslu eins og t.d. tvöföldu húsi og öllu því sem því fylgir.

Sér verða var óskað m.a. á ýmsum innréttingum, slöngukeflum, loftkerfi, drifbúnaði, skiptingu, röralögnum, hitun, mælum ofl. ofl.

Slökkvilið Hveragerðis ákvað að kaupa bifreið samkvæmt þriðja lægsta tilboðinu þ.e. ROSENBAUER-MAN 19.410 og með tvöföldu húsi ásamt margvíslegum búnaði í samræmi við útboðsgögn. Bifreiðin kostaði nákvæmlega það sem hún átti að kosta samkvæmt útboðsgögnum. Hvergerðingar völdu mjög fullkomna bifreið búna margvíslegum búnaði og óskum við þeim hjartanlega til hamingju með valið.

Varðandi fullyrðingar bréfritara um að aðaldæla bifreiðarinnar sé tæknilega ófullkomnari eða afkastaminni, en sú sem hann bauð í sjötta lægsta tilboðinu, vísa ég til föðurhúsanna og geri ráð fyrir að greinahöfundur geymi betri mann og hann sjái að sér og leggi frekar áherslu á að selja sínar vörur, án þess að vera með skítkast í keppinauta. Slík eru alla vega ekki vinnubrögð okkar.

Framleiðandinn ROSENAUER er alþjóðlegt fyrirtæki stofnað 1866 með höfuðstöðvar í Austurríki. Margar verksmiðjur í öllum heimsálfum m.a. í Þýskalandi og Bandaríkjunum, sem greinahöfundur sér ástæðu til að nefna sérstaklega.

ROSENBAUER er einn virstasti og stærsti framleiðandi á margvíslegum slökkvibúnaði og slökkvibifreiðum. Framleiðir m.a. þann búnað sem greinahöfundur leggur sérstaka áherslu á í markaðssókn sinni.

Seldar hafa verið 23 slökkvibifreiðar af ROSENBAUER gerð hérlendis og segir það kannski meira, en nokkur önnur orð.

Mörgu öðru í greininni væri ástæða til að svara en við viljum frekar leggja áherslu á að eyða tíma okkar við að sinna hinum mörgu góðu viðskiptavinum sem við eigum. Án þeirra værum við ekki að starfa á þessum markaði.

Benedikt Einar Gunnarsson