"Ég keypti þetta í fyrra, sirka í júní. Ég byrjaði þó ekki að reka þetta af viti fyrr en í desember sökum anna, meðan ég var að klára þau verkefni sem ég var í á þeim tíma," segir Frank Höybye Christensen sem rekur nú fyrirtækið Slökkvitæki ehf., sem sérhæfir sig í brunavörnum fyrirtækja, heimila og húsfélaga.
Íslendingar ættu að þekkja Frank sem hefur birst í fjöldanum af íslenskum skemmtiþáttum á borð við Strákana, Fóstbræður og í Áramótaskaupinu. Einnig hefur Frank birst í fjölda auglýsinga og stigið á fjalir Hafnarfjarðarleikhússins. Mætti í raun titla hann frægasta dverg landsins, að öðrum dvergum ólöstuðum. Hann segist þó vera hættur að leika. "Ég er eiginlega hættur öllum fíflagangi en tek að mér eitt og eitt lítið verkefni. Nú óskast annar dvergur til að taka þátt í slíku," segir Frank og hlær.
Frank segir reksturinn ganga vel. Hann einbeitir sér aðallega að suðurhluta landsins: Selfossi, Hveragerði og svo höfuðborgarsvæðinu. Hann segir fólk nokkuð meðvitað um brunavarnir en þó þurfi oft að ýta við því. "Fólk á kannski tæki en það er ekki víst að það sé hlaðið. Sumir hafa átt slökkvitæki bak við hurð í fimmtán ár og vita í raun ekkert hvort það virkar eða ekki. En fólk er að vakna til vitundar, þetta er eitthvað sem fólk lætur sitja á hakanum því það heldur að hlutirnir séu í lagi," segir hann.
Miklar tækniframfarir hafa orðið í brunavörnum að sögn Franks. Til að mynda eru nú komnir til sögunnar þráðlausir reykskynjarar. "Segjum að þú búir í þriggja hæða húsi með bílskúr. Þú sefur upp á þriðju hæð og það kviknar í bílskúrnum. Þá fer reykskynjarinn í herberginu í gang um leið og sá sem er í bílskúrnum. Það er hægt að tengja einhverja tuttugu reykskynjara saman," segir Frank sem selur allt frá eldvarnateppum til slökkvitækja og auðvitað reykskynjara. En eru eldvarnir á heimili Franks í toppstandi? "Að sjálfsögðu," svarar hann ákveðinn.
Aðspurður hvort þessi fyrirtækjarekstur sé hluti af gömlum slökkviliðsdraumi svarar Frank: "Nei, nei. Maður er bara að reyna að lifa."
soli
@frettabladid.is