Í ólund og óstuði í tiltekt á skrifstofu minni kom ég að grein í Morgunblaðinu frá 12. mars á
þessu ári en þar sagði frá samningi sem tæknideild Brunamálastofnuar ríkisins hafði nýverið gert við ákveðna
slökkvitækjaþjónustu. Fól samningurinn í sér kaup á 11 reykköfunartækjum og viðhald á þeim. Hér var um
endurnýjun á öllum reykköfunartækjum stofnunarinnar eins og segir í greininni.
Ég hafði lagt þessa grein frá mér á sínum tíma og þá ákveðið að gera athugasemd
við þessa framkvæmd opinberrar stofnunar en úr því varð ekki enda hefði það engu breytt frekar en í öðru. Þegar komið
er fram á vetrarmánuðina er runnin reiðin eða kannski frekar að tilfinningin fyrir ósanngirninni er að mestu horfin en mig langar svona fyrir sjálfan
mig að velta þessu aðeins fyrir mér. Ég er mannlegur og neita því ekki að öfundin stýrir að hluta skrifum þessum. Ég er
ekkert öðruvísi en aðrir.
Hér er um að, ræða samning sem gera má ráð fyrir að sé að verðmæti um 4 til 5 milljónir fyrsta
árið og svo eflaust einhver dálagleg upphæð árlega í viðhald og varahluti.
Einhvern tíma voru til reglur um innkaup hins opinbera þ.e. sveitarfélaga og ríkisins. Mig minnir að tölurnar séu
frá byrjun þessa árs en þær eru að sveitarfélög eiga að bjóða út innkaup yfir 16 milljónir og verklegar framkvæmdir
fyrir allt að 397 milljónir og ríkið á að bjóða út innkaup yfir 5 milljónir og þjónustu yfir 10 milljónir.
Í þessu tilfelli er ágiskuð upphæð mín undir útboðskröfu en þessi markaður er ekki stór.
Það eru ekki margir innflytjendur eða þjónustuaðilar reykköfunartækja hér á landi. Við erum líklega fjórir sem
ástundum þetta. Af hverju var ekki leitað til annarra aðila eftir verði og gæða samanburði ?
Það vaknar önnur spurning. Af hverju kaupir Brunamálastofnun ríkisins aðeins eina gerð reykköfunartækja til að
kenna slökkvliðsmönnum á um allt land? Þessi ákveðna gerð er t.d. ekki í notkun hjá tveimur stærstu slökkviliðum landsins og
hjá nokkrum er þessi gerð á útleið. Ég get ekki svarað þessu en það er líka svo margt sem ég á ekki svör
við.
Einhvern tíma sló ég fram þeirri hugmynd af hverju Brunamálastofnun ríkisins nýtti sér ekki smæð
markaðarins hér og falaðist eftir búnaði og tækjum í farskóla sinn hjá seljendum og þjónustuaðilum á sanngjörnu
verði sem ígildi auglýsingar fyrir viðkomandi stofnun. Með þessu fyrirkomulagi væri mun auðveldara að endurnýja búnað skólans og
hann yrði nútímalegri. Það ætti að vera mun áhugaverðara fyrir slökkviliðsmenn að læra á búnað sem þeir
þekkja og nota heldur en einhvern annan sem þeir hafa ekki og munu hugsanlega aldrei eignast.
Reykjavík 11. nóvember 2002
Benedikt Einar Gunnarsson.