Dauðadómur yfir duftslökkitækjum á heimili.

Furðulostinn horfði og hlustaði ég á fræðslu tveggja góðra brunavarða í þættinum Íslandi í býtið í morgun. Þar hlaut duftslökkvitækið dauðadóm sem slökkvitæki á heimili landsmanna.

Ég get ómögulega verið sammála þessu og það er orðið knýandi að menn kynni sér slökkvimátt þ.e. slökkvieiningar slökkvitækja. Lesa má um það í leiðbeiningum um val og staðsetningu slökkvitækja nr. 165 frá Brunamálastofnun. Ég er ekki í vafa um kunnáttu brunavarða í meðferð og notkun slökkvitækja. Það er fjarri mér en staðreyndin er sú að duftslökkvitæki er öflugasta slökkvitækið á markaði hérlendis. Ég segi hérlendis þar sem flestir innflytjendur slökkvitækja allavega þeir sem mesta reynslu hafa og lengst hafa sinnt því flytja inn slökkvitæki flytja inn mun öflugri tæki en kveðið er á um í IST EN staðlinum. Okkar reynsla spannar 50 ár.

Léttvatnsslökkvitæki ná alls ekki sama slökkvimætti og duftslökkvitæki. Það er staðreynd. Jockel 6 kg. duftslökkvitæki hefur 34A og 233B slökkvieiningar en Jockel 6 l. léttvatnsslökkvitæki hefur 27A og 183B slökkvieiningar. Jockel léttvatnsslökkvitækið er öflugasta léttvatnsslökkvitækið á markaðnum en hér er þó talsverður munur á slökkvimætti og í höndum þess sem ekki hefur mikla reynslu geta þessar slökkvieiningar skilið á milli lífs og dauða. Lifeco duftslökkvitæki hefur 34A og 183B slökkvieiningar og Lifeco 6 l. léttvatnsslökkvitæki hefur 21A og 144 B slökkvieiningar. Hér er líka mikill munur.

Hér að ofan er samanburður á milli vandaðra og öflugra slökkvitækja og ekki batnar samanburður ef horft er á slökkvitæki sem uppfylla bara staðalinn.

Önnur staðreynd er að duftslökkvitæki er A, B og C slökkvitæki frá framleiðanda en léttvatnsslökkvitæki er aðeins A og B tæki en bæði tækin gefin upp fyrir að nota megi á rafmagnselda að 1000 voltum. Hvers vegna er léttvatnsslökkvitækið ekki gefið upp frá framleiðanda sem A, B og C tæki ? Vegna þess að það er ekki á rafmagnselda en má notast á rafmagnselda ?

Við höfum flutt inn frá einum framleiðanda Saval A, B og C léttvatnsslökkvitæki og er það eina tækið sem við þekkjum til með slíka merkingu.

Þriðja staðreyndin er sú að heimilisslökkvitæki koma almennt ekki til skoðunar til þjónustuaðila reglulega. Skoða skal slökkvitæki árlega en það er verulegur misbrestur á að heimilin sinni því. Kemur þar margt til og skal hver líta í sinn barm. Duftslökkvitæki með mæli þarf að umhlaða á fimm ára fresti og þá er ekki skipt um neitt aðeins umhlaðið en flestir framleiðendur léttvatnsslökkvitækja mæla með og óska eftir að léttvatni á slökkvitækjum sé skipt út á fjögurra ára ára fresti og skoðun minnst á tveggja ára fresti. Þetta er mismunandi milli framleiðanda en þetta er þó nokkuð líkt hjá þeim flestum.

Hér í þjónustustöð okkar höfum við tekið 15 ára duftslökkvitæki af heimili og skoðað í fyrsta sinn og hefði það tæki unnið óaðfinnanlega. Erfitt á ég með að ímynda mér að léttvatsslökkvitæki yrði í sama ásigkomulagi án skoðunar í 15 ár. Hvar er þá öryggið ?

Talsvert hefur verið um hér í höfuðstaðnum að skipta út slökkvitækjum aðallega duftslökkvitækjum og setja léttvatnsslökkvitæki í staðinn sem oftar en ekki eru með minni slökkvigetu en duftslökkivtækin. Er þá ekki verið að veikja varnir með því að setja í stað tækis tæki með minni slökkvimátt ?

Duftslökkvitæki er sóðalegt í notkun og ekki glóðabani en það er kolsýrutæki ekki heldur. Því miður eru þrif eftir að duftslökkvitæki er notað en eldur og sót skemma líka. Léttvatnsslökkvitæki er glóðabani og hindarar enduríkviknun. Þetta eru góðir kostir en slökkvimáttur er ekki sá sami og með duftslökkvitæki.

Margir framleiðendur leika þann leik að bjóða ódýr slökkvitæki og er þá oftast um að ræða tæki með minni slökkvimátt þ.e. fáar slökkvieiningar og ekki í öllum tilfellum uppfylla þau tæki IST-EN 3 staðalinn sem segir kaupanda að hann sé að kaupa slökkvitæki sem hentar. Á markaði eru  köfnunarefnisfyllt tæki en án mælis en þá getur eigandi ekki fylgst með ástandi tækisins. Eins eru tæki sem vonlaust er að yfirfara og jafnvel ekki gert ráð fyrir að það sé mögulegt. Einnota tæki í mörgum stærðum. Slökkvitæki án íslenskra leiðbeininga. Skoðið vel þau tæki sem þið hafið í huga að kaupa. Berið saman slökkvieiningar og gætið þess að tækið sé merkt söluaðila og heiti framleiðanda ásamt tegundarheiti sé á tækinu. Þetta er nauðsynlegt svo þjónustuaðili viti hvaða varahluti og gerð slökkviefna hann á að nota svo slökkvieiningar tækisins verði áfram eins og gefið er upp á tækinu sjálfu.

Ástæða þessara skrifa er að við höfum fengið þó nokkrar hringingar í dag þar sem menn hafa lýst undrun sinni á dauðadómnum og finna ekki sökina. Mín skoðun er að duftslökkvitæki sé besta alhliða slökkvitækið á heimili með tilliti til þeirra staðreynda sem ég hef nefnt að ofan.

Reykjavík 2. desember 2004

Benedikt Einar Gunnarsson

ogeld-beg@islandia.is