Rauða hananum 2005 er lokið en 1.385 sýnendur kynntu vörur sínar

Rauða hananum 2005 er lokið en 1.385 sýnendur kynntu vörur sínar og þjónustu á 93.124 m2. 55% sýnenda voru Þjóðverjar en aðrir sýnendur voru frá 46 löndum. Má þar nefna 76 frá Bretlandi, 69 frá Bandaríkjunum og 57 frá Ítalíu. Frá nýju EB löndunum voru m.a. 23 frá Póllandi og frá Asíu voru 48 sýnendur frá frá Kína. Þetta eru svona helstu tölur en við Íslendingarnir sem sóttum sýninguna vorum um 200 talsins eftir því sem við komumst næst sem er um 0,07% íslensku þjóðarinnar. Svíar voru um 1.500 en þeir hefðu þurft að vera 6.100 til að slá okkur við. Svona erum við alltaf bestir.

Á heimasíðu Brunamálastofnunar kemur fram að hérlendis séu 60 slökkvilið. Í Þýskalandi eru 24.702 slökkvilið og 993 iðnaðarslökkvilið eða alls 25.695 slökkvilið. Þar búa 81,6 milljónir manna. Um hvert slökkvilið eru 3.175 íbúar en hér á landi 4.835 íbúar. Hér erum við ekki bestir. Hvað kemur til ?

Við munum á næstu dögum koma með upplýsingar um þær nýjungar sem við sáum hjá birgjum okkar eða nýjum birgjum okkar en það var margt sem vakti athygli okkar. Breytingar eru á stöðlum sem verður til þessa að búnaði er breytt eða nýr fundinn til til að mæta þeim kröfum. Má þar nefna breytingar á dælustaðli, hjálmastaðli og úðastútastaðli.

Við reynum að vera duglegir að setja inn en birgjar okkar á sýningunni eru milli 50 og 60 svo það tekur sinn tíma en fylgist með.

Fróðlegt var að sjá fyrrum samkeppnisaðila nú í eigu sama aðila sitja nú undir sama þaki eða í sama bás og sýna.