Samtök iðnaðarins fagna aðgerðum gegn kennitöluflakki í útboði

Samtök iðnaðarins segja, að í nýgengu útboði Vegagerðarinnar á áætlunarakstri á sérleyfisleiðum hafi í fyrsta sinn beitt sérstöku ákvæði til að verjast kennitöluflakki.

Nýmælin felist í því að viðskiptasaga stjórnenda og helstu eigenda tilboðsgjafa sé könnuð aftur í tímann og geti orðið tilefni til frávísunar. Ekki sé nóg að stofna nýtt fyrirtæki með nýja og hreina kennitölu eða grípa til ónotaðrar kennitölu hafi menn verið svo fyrirhyggjusamir að verða sér út um kennitölur til seinni nota, heldur sé litið til viðskiptasögu stjórnenda og helstu eigenda og eðli rekstrar.

Samtök iðnaðarins segja á heimasíðu sinni, að hér sé á ferðinni nýmæli, því að áður hafi dugað að stofna nýtt fyrirtæki eða endurvekja sofandi kennitölu og þar með hurfu ógreidd lífeyrissjóðsgjöld, skattar og skuldir við birgja og jafnvel gömul dómsmál. Þetta hafi gert sumum kleift að taka þátt í opinberum útboðum í ójafnri samkeppni við fyrirtæki sem greiða samviskusamlega skatta og gjöld.

Samtök iðnaðarins segjast hafa vakið máls á því opinberlega, að kennitöluflakk sé alvarlegt vandamál í íslensku viðskiptalífi og við því verði að bregðast. Opinberir aðilar geti, sem kaupendur á útboðsmarkaði, haft veruleg áhrif til bóta og þetta breytta verklag Vegagerðarinnar geti skipt sköpum til að stemma stigu við ómældu tjóni sem kennitöluflakkarar baki íslensku atvinnulífi og heiðarlegum þátttakendum á markaði.

Samtök iðnaðarins