Um 850 milljóna tjón vegna rafmagnsbruna

Frétt af vef Morgunblaðsins í morgun. (19/11 2002)

Áætlað er að brunar af völdum rafmagns hafi verið 887 í fyrra og eignatjón vegna þeirra hafi numið 850 milljónum króna. Sex af hverjum tíu brunum af völdum rafmagns urðu í íbúðarhúsnæði. Í hátt í helmingi tilvika varð eldur laus vegna rangrar notkunar en í rúmum 42% tilvika var orsökin bilun eða hrörnun í búnaðinum sjálfum.

Þetta er meðal helstu niðurstaðna í nýrri ársskýrslu Löggildingarstofu sem skráir slys og bruna af völdum rafmagns hér á landi.

Enginn fórst í rafmagnsbrunum hér á landi í fyrra og er tíðnin raunar nokkuð lægri hér en á hinum Norðurlöndunum eða 0,44 dauðsföll á ári. Langalgengast er að eldur kvikni út frá eldavélum eða í 37% allra rafmagnsbruna og í nær öllum tilvikum er það vegna mannlegra mistaka, svo sem aðgæsluleysis eða rangrar notkunar. Einna algengast er að fólk gleymi pottum á eldavélarhellum og eldur kvikni af þeim sökum. Næstalgengast var að bruni yrði vegna rafmagnstaflna og raflagna í neysluveitum. Þá er og algengt að bruni verði vegna rafmagnstækja ýmiss konar, þ.e. ísskápa, þvottavéla, uppþvottavéla, lausatækja, sjónvarpa, lampa og ýmissa varmamyndandi tækja eða 1-5% bruna hvert tæki.

Löggildingarstofan skráði 73 bruna af völdum rafmagns í fyrra sem er svipað og árið áður en engu að síður nokkuð meira en síðastliðin sex ára en að meðaltali voru skráðir 63 brunar á ári 1995-2001.

Flest slysanna urðu vegna mannlegra orsaka eða um 80% og var um þriðjungur hinna slösuðu rafveitumenn, einn af hverjum fjórum var rafiðnaðarmaður en tæplega helmingur leikir, þ.e. venjulegt fólk.

Hefði mátt koma í veg fyrir um 400 bruna

Í skýrslu Löggildingarstofu segir að með réttri notkun hefði mátt koma í veg fyrir stóran hluta rafmagnsbruna eða allt að 46% og því hefði með réttri notkun og aðgæslu mátt koma í veg fyrir um 400 tjón í fyrra.

Ekkert dauðsfall varð vegna rafmagnsbruna í fyrra og er þetta fimmta árið í röð án dauðsfalla af þeim völdum en árið 1996 fórust tveir menn í rafmagnsbruna. Tíðni dauðsfalla vegna rafmagsnbruna er um 1,55 á hverja milljón íbúa en samsvarandi tala á hinum Norðurlöndunum er 1,81.