(Sjúk) rabílakaup

Úrskurður Kærunefndar útboðsmála í kæru okkar um þá ákvörðun Ríkiskaupa að taka tilboði Múlatinds ehf í útboði Ríkiskaupa nr. 13790 hefur verið birtur okkur. Hann hljóðar eins og fyrri úrskurðir að kröfum okkar er hafnað. Hér má lesa um úrskurðinn. Það sem kemur mér mest á óvart í þessum úrskurði er niðurlagið þar sem kærunefndin kemst að eftirfarandi. Tilvitnun hefst

Það athugast að í 70. gr. laga nr. 94/2001 er fjallað um Ríkiskaup og segir þar meðal annars að stofnunin annist innkaup fyrir ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki, rannsaki sameiginlegar þarfir á vörum og þjónustu og beiti sér fyrir samræmdum innkaupum til þarfa ríkisins. Virðist því aðeins vera gert ráð fyrir að stofnunin hafi umsjón með útboðum ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja, en ekki félaga á borð við Rauða kross Íslands. Sú staðreynd að Ríkiskaup óskaði eftir tilboðum í hið kærða útboð fyrir hönd Rauða kross Íslands getur þó ekki breytt því að félagið telst ekki vera opinber aðili í skilningi 2. mgr. 3. gr. laga nr. 94/2001 eins og rakið var að framan.

Fjallað er um heimildir og úrræði kærunefndar útboðsmála í XIII. kafla laga um opinber innkaup. Hlutverk nefndarinnar er að leysa úr ágreiningi aðila vegna ætlaðra brota á lögunum. Þar sem verkkaupi í því útboði sem kæra þessi beinist að fellur ekki undir lögin samkvæmt framansögðu brestur nefndina heimild til að leysa úr kæru kæranda. Það að vísað er til kærunefndar útboðsmála í lið 1.2.4 í útboðsgögnum getur ekki breytt þeirri niðurstöðu. Með vísan til þessa verður að vísa kröfum kæranda frá kærunefnd útboðsmála. 

Úrskurðarorð:


Kröfum kæranda, Ólafs Gíslasonar & Co. hf., vegna útboðs nr. 13790, auðkennt sem ,,Sjúkrabifreiðar fyrir Rauða kross Íslands“ er vísað frá kærunefnd útboðsmála.
Tilvitnun lýkur.

Ég hef leyft mér að gula þau atriði í umfjöllun kærunefndar ef einhver hefur nennu að lesa úrskurðinn. Það eina sem við höfum farið fram á er að farið sé að leikreglum og að leikreglur séu fyrir alla þátttakendur. Svo einfalt er það. Þetta er yfirklór að mínu mati. Það er spurning hvort við höfum áhuga á að taka þátt í frekari skollaleikjum af þessu tagi en það verður að koma í ljós. Ég fullyrði að aðkoma okkar að útboðum á sjúkrabifreiðum hefur orðið til þess að verð sjúkrabifreiða hefur lækkað um lágmark 20%. Ef við hættum í leiknum þá hækkar verð líklega samsvarandi.

Benedikt Einar Gunnarsson